NÝIR TÍMAR – NÝJAR ÞARFIR
Mannslíkaminn þarfnast vökva. Svala- og þorstadrykkir, s.s. vatn og ávaxta- og mjólkurdrykkir ýmiss konar, eru almennt notaðir t.d. með mat. Drykkur stuðlar ekki aðeins að eðlilegri starfsemi líkamans heldur er hann einnig til bragðbætis og eykur ánægjuna af því að neyta fæðunnar.
Auk þeirra drykkja, sem nefndir eru hér að ofan, hefur áfengi verið notað öldum saman sem svaladrykkur, fæða eða vegna vímuáhrifa þess. Hér á landi hefur áfengi einkum verið notað vímunnar vegna en hin síðari ár æ meir sem hluti máltíðar eða til bragðauka. Notkun áfengis fylgir alltaf áhætta og því eru margir sem neyta ekki áfengis, ýmist aldrei eða gera það ekki í ákveðnum tilvikum.
Aukin áhersla á heilbrigði og hollar lífsvenjur og aukin þekking á áhrifum áfengis á heilbrigði hefur leitt til vaxandi áhuga og eftirspurnar eftir óáfengum drykkjum. Líklegt er að sá áhugi fari enn vaxandi en á þessari síðu er einmitt að finna hugmyndir að slíkum drykkjum.