Veittu óáfengt

Líf okkar er umvafið og gegnsýrt af alls kyns táknum og tilvísunum sem við leiðum ekki hugann að og látum okkur almennt í léttu rúmi liggja. Látum okkur nægja gleðina og stemminguna sem þeim fylgja. Þessi tákn, eða hlutirnir sem um ræðir, vekja með okkur tilfinningar án þess að í sjálfu sér sé um einhverja töfragripi að ræða. Hlutirnir orka ekki á tilfinningar okkar vegna eiginleika sjálfra sín heldur vegna þess að samfélagið, við, höfum veitt þeim hlutverk. Áhrifin stafa af því að við höfum vanist þeim við ákveðin, hátíðleg tækifæri. Svona tákn geta verið margbreytileg eftir menningum eða jafnvel þjóðfélagshópum.
Til dæmis um mjög sterkt tákn má nefna jólatréð og áhrif þess á okkur. Jólatréð getur komi okkur í gott skap og verið ómissandi til þess að skapa réttu jólastemminguna, en ekki geta eiginleikar grenitrésins sjálfs vakið hátíðablæ jólanna eða útskýrt þær tilfinningar sem gagntaka hugann. Önnur dæmi um tákn sem vekja tilfinningar eru logandi viðarkestir eða safnhaugar, sem við köllum áramótabrennur. Efnafræðin dugar skammt til að skýra þessi áhrif. Skýringanna er að leita í samfélaginu sem gefur ákveðnum hlutum táknræna merkingu.

Áfengi er dæmi um fyrirbæri sem hefur sterka táknbundna skírskotun. Sú skírskotun er orðin inngróin í menninguna og samskipti okkar. Áfengi er tákn um hátíðleika og tilbreytingu og tengist því að gera sér dagamun. Áfengi er líka tákn um þroska og sjálfstæði. Unglingar telja t.d. margir að með því að drekka áfengi séu þeir að brjóta af sér ,,hlekki“ barnsins og stíga inn í heim fullorðinna. Áfengi er líka stöðutákn; sá sem býður upp á vönduð vín og dýr er annars vegar að gefa til kynna velmegun sína eða fágaðan smekk. Eitthvað sem greinir hann frá ,,almúganum“.

Margir áfengisneytendur nota áfengi eingöngu í táknrænum tilgangi og finnst það tilheyra og vera ómissandi við ákveðin tækifæri. Nota áfengi aldrei í vímuskyni. Öðrum er áfengi allt annað. Sumum tákn um vandamál, kvíða, öryggisleysi og jafnvel ofbeldi. Margir eiga slæmar minningar frá bernskuárum um ölvun sem hefur spillt jólagleði eða annarri hátíðarstemmingu. Aðrir kvíða því að þurfa að takast á við allan áróðurinn og hið mikla framboð áfengis sem til dæmis tengist undirbúningi og hátíðarhaldi jóla og áramóta.

Tilgangur þessarar vefsíðu er að vekja athygli á því að áfengi er ekki sjálfsagður hluti hátíðarstemmingar heldur val hvers og eins. Tilgangurinn er líka að vekja athygli á óáfengum valkostum, óáfengum drykkjum. Á síðunni er að finna úrval fjölbreyttra uppskrifta að óáfengum drykkjum við öll tækifæri.

Óáfengt er góður kostur!